Mig langar til að biðja ykkur um að dreifa eða deila þessum skrifum mínum sem víðast. Ég vonast til að fá einhver viðbrögð frá fólki sem málið varðar s.s. stjórnmálamönnum, embættismönnum og jafnvel fréttamiðlum sem væru tilbúnir að fjalla um hvernig og hvort leikreglur okkar virka.
Í kvöldfréttum RÚV fyrir skemmstu var sagt frá og rætt við konu frá Íran sem kom til landsins sem flóttamaður í byrjun árs 2012. Það tók Útlendingastofnun 13 mánuði að fjalla um hælisumsókn hennar sem var samþykkt en fréttin snerist um hvað þessi langi afgreiðslutími væri ómannúðlegur og mannskemmandi. Fréttin endaði á því að segja að afgreiðslutími hælisumsókna væri mun styttri í dag. Litlu síðar las ég á einhverjum netmiðlinum að fjölskyldu frá Úsbekistan hefði verið vísað úr landi eftir að hafa verið hér á landi í 8 mánuði. Er þessi langi afgreiðslutími í lagi?
Þannig er mál með vexti að ég sótti um örorkumat í maí 2015 hjá Tryggingastofnun (TR). Þegar þriggja mánaða afgreiðslufrestur TR var að renna út, fór ég að leita eftir svörum sem voru engin að mínu mati. Stofnunin gaf mér þau svör að það væru sumarleyfi í gangi og mikið álag. Eru ekki sumarleyfi á hverju sumri? Í september kemur niðurstaða. Ég hef þá 15 daga til að biðja um rökstuðning og 3 mánuði til að kæra niðurstöðuna. Ég óskaði ekki eftir rökstuðning en ákvað í byrjun desember að kæra niðurstöðuna til úrskurðarnefndar Almannatrygginga sem einnig gefur sér 3 mánuði til að úrskurða í málinu. Um áramót er úrskurðarnefnd Almannatrygginga ásamt fleiri úrskurðarnefndum sameinuð í eina nefnd sem heitir úrskurðarnefnd Velferðarmála. Ég fer að leita svara þegar 3 mánuðir eru liðnir. Þar er mér sagt að það hafi verið sent bréf í nóvember og útskýrt að það ætti að sameina þessar nefndir. Ég kærði hins vegar í desember og fékk því ekkert bréf. Eftir áramótin var svo farið í það að ráða í nýju nefndina og skipuleggja störfin en engin mál tekin fyrir á meðan. Af hverju sú vinna hófst ekki í nóvember, er mér hulin ráðgáta þar sem það virðist hafa legið fyrir að þessar sameiningar ættu að eiga sér stað um áramótin.
Ég hafði svo aftur samband þegar rúmir 4 mánuðir voru liðnir frá kæru. Svörin sem ég fékk þá, voru að það væri bréf á leiðinni til mín með útskýringum um að tafir yrðu á fyrirtöku kærunnar vegna sameininga nefndanna í eina. Mér var einnig sagt númer hvað mitt mál væri, sirka hvaða númer væri verið að vinna í þá stundina og nokkurn veginn hvað væru tekin mörg mál fyrir á viku.
Nú er alveg að detta í 1 ár frá því að þetta ferli hófst en ekki enn komin endanleg niðurstaða. Hvað ætli hefði orðið ef það hefði dregist um nokkra daga hjá mér að kæra úrskurð TR og ég hefði farið fram yfir þriggja mánaða kærufrestinn? Hefði því verið vísað frá? Ég veit það ekki, en mér finnst það líklegt. Finnst ykkur eðlilegt að þetta taki svona langan tíma? Því að mitt mál er örugglega ekkert einsdæmi.
Ég sótti á sama tíma um örorku til Lífeyrissjóðs. Þar var umsóknin afreidd endanlega seint í júní eða byrjun júlí. Nú þegar hefur mér borist bréf frá Lífeyrirssjóðnum um að ég þurfi að fara senda inn endurmat ef ég ætli að endurnýja örorkuna sem rennur út í júní. Það er spurning hvort Lífeyrissjóðurinn verði búinn að afgreiða mig tvisvar áður en almenna kerfið klárar mitt mál?
Takk kærlega fyrir að hafa lesið þessi skrif mín. Ég vil biðja ykkur um að deila þessu fyrir mig ef þið eruð sammála mér um að þessi langi afgreiðslu tími sé ekki boðlegur. Það væri mér mikil ánægja ef þessi pistill rataði til einhverra sem málið varðar svo sem stjórnmálamanna, embættismanna eða annarra og að ég fengi einhver viðbrögð frá þeim.
Víðir Rósberg Egilsson.