Þann 1. apríl síðastliðinn voru liðin tuttugu og sex ár frá því ég hóf störf sem þjálfari. Það var þá sem Siggi Gests tók mig að sér í Vaxtarræktinni. Fimmtán ára unglinginn með brennandi áhuga á líkamsrækt. Hann kenndi mér réttu tökin og beitingarnar í salnum og gerði mig reiðubúinn fyrir fyrsta viðskiptavininn. Þetta ár var eina árið á mínum ferli þar sem ég hef greitt fyrir líkamsræktarkort. Ég byrjaði svo að þjálfa einu ári síðar og hef starfað við þetta síðan.
Síðan þá hef ég ekki greitt fyrir kort þar sem það er innifalið þar sem maður starfar hverju sinni. Ég hef starfað erlendis og hér heima þetta tímabil. Það kostar að meðaltali um 6.000- 8.000 krónur á mánuði að stunda líkamsrækt á líkamsræktarstöð ef þú bindur þig í eitt ár á Íslandi. Erlendis er það oft dýrara eða allt upp í 20.000 krónur mánuðurinn eða meira miðað við bindingu í sama tíma.
Erlendis er það á mörgum stöðum talið til forréttinda að stunda slíka rækt og þannig hafa því ekki allir ráð á því að stunda hana. Hvert tæki sem keypt er og þú getur notað að vild, kostar að meðaltali mörg hundruð þúsund krónur. Hvert tæki. Þú mátt svo nota þau öll eins og þig lystir, fyrir nokkra þúsundkalla. Þar sem ég starfa, í Átaki Strandgötu, er pottur á efri hæðinni sem þú mátt nota eins og þú vilt. Í bæði karla og kvennaklefanum er gufa sem er þín sömuleiðis. Ég heimsótti líkamsræktarstöð á Ítalíu einu sinni þar sem sturta var fyrir bæði kynin. Þrátt fyrir það kostaði áskrift þar um 17.000 krónur ef þú myndir binda þig í eitt ár. Í Hollandi fór ég í ræktina og áskriftin þar kostaði 22.000 krónur mánuðurinn en þar var engin sturtuaðstaða. Fórst heim í sturtu.
Ef þú tekur til greina þá alla þjónustu sem þú færð hér á landi og miðar hana við marga staði erlendis, þá finnur þú strax mun eins og ég hef gert á mínum ferli sem þjálfari. Ef þú ætlar að reka þinn eigin heita pott, er það eins og við vitum öll mikill grunnkostnaður og hitaveitan mánaðarlega færi hátt í mánaðarbindinguna. En þá eru engin tæki eða gufa innifalin. Svarið við spurningunni sem ég legg hér fram er þitt að ákveða. Er virkilega svona dýrt að stunda líkamsrækt eins og margir kunna að halda?
Heimsend flatbaka í eitt skipti þegar þú nennir ekki að elda getur kostar 7.000-8.000 krónur í eitt skipti. Ekki heyrir maður marga kvarta þá. Það eru kannski einhverjir sem telja mig ekki dómbæran á þetta þar sem ég hef ekki þurft að greiða kort í allan þennan tíma.
En hugsum þetta aðeins. Sjáumst í ræktinni.
-Ásgeir Ólafsson, höfundur skrifaði metsölubókina Léttu leiðina og er einkaþjálfari.