Enn ekki verið gengið frá kaupum á gögnum vegna Vaðlaheiðarganga

Enn hefur ekki verið gengið formlega frá kaupum Vegagerðarinnar á gögnum Greiðrar leiðar ehf., sem félagið lét vinna í tenglsum við gerð Vaðlaheiðarganga, samkvæmt upplýsingum Péturs Þórs Jónassonar formanns stjórnar Greiðrar leiðar.  

Kristján Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hafa báðir sagt að gögnin verði keypt og sagði Hreinn í samtali við Vikudag í maí sl. að upphæðin sem Vegagerðin þyrfti að borga fyrir þau, væri nálægt 120 milljónum króna. Hreinn sagði þá jafnframt að undirbúningur forvals væri kominn í gang og áætlað að hann tæki um tvo mánuði. Pétur Þór segir að að í lok janúar sl., rétt fyrir ríkisstjórnarskipti, hafi náðst samkomulag um það með hvaða hætti gögnin skyldu verðlögð og gengið frá samningi en ekkert varð hins vegar af undirritun. "Frá þeim tíma hefur af og til staðið til að ganga frá samningi. Nú síðast í júlí, eins og greint var frá á aðalfundi Greiðrar leiðar 30. júní, var áformað að ganga frá samningi. Af því varð ekki og er málið hjá samgönguráðherra. Sú skýring sem ég hef fengið er að frágangur samningsins haldist í hendur við viðræður við lífeyrissjóðina um fármögnun framkvæmdanna. Til stendur að fá fund með ráðherra fljótlega til að skýra málið," sagði Pétur Þór.

Hann segir það auðvitað bagalegt fyrir hluthafana að ekki skuli hafa verið gengið frá kaupunum þar sem því hafi margsinnis verið lýst yfir að það verði gert og sé nánast frágengið. "Það er hins vegar svo að Vegagerðin hefur haft veigamestu gögnin, þ.e.a.s. jarðfræðiskýrsluna, til afnota frá júlí 2008. Stjórn Greiðar leiðar ákvað að verða við ósk Vegagerðarinnar um að afhenda skýrsluna þannig að undirbúningur tefðist ekki, enda gert ráð fyrir að gögnin yrðu keypt áður en langt liði. Fyrir vikið er Vegagerðin líka tilbúin með forvalsgögn. Málið er ekki í þeim í þeim farvegi sem ég hefði kosið en ég trúi því enn, þar sem undirbúningsvinnu er lokið, að verkefnið komist senn á framkvæmdastig og gögnin verði keypt," sagði Pétur Þór.

Nýjast