Enn á ný er aðsóknarmet sett hjá LA því á yfirstandandi leikári er fjöldi gesta á Akureyri orðinn sá mesti frá upphafi. Þetta leikár slær því út síðasta ár, sem líka var metár, hvað þetta varðar. Áhorfendur að sýningum leikhússins á Akureyri í vetur voru nálægt 27.000. Við þetta bætast um 11.000 gestir sem sáu sýningar LA í Reykjavík. Aðsókn síðustu þrjú leikár hefur vaxið jafnt og þétt og er ljóst að leikhúsið nýtur mikillar almennrar hylli. Í vetur hefur aðsókn verið mikil og jöfn að öllum sýningum LA. Félagið frumsýndi verkin Herra Kolbert, Karíus og Baktus, Svartur köttur og Lífið - notkunarreglur og fengu allar sýningarnar góða aðsókn. Að auki var boðið upp á sýningar frá fyrra ári, leiklestra, gestasýningar og margt fleira. Uppselt var langflest sýningarkvöld í leikhúsinu í vetur. Aðsókn að sýningum LA hefur aukist umtalsvert undanfarin ár. Síðustu þrjú leikár hefur hún verið mun meiri en árin þar á undan en þá voru gestir yfirleitt á bilinu 5-10.000 á ári. Að auki hefur LA á undanförnum árum sent einstaka uppsetningar til Reykjavíkur þar sem þær hafa notið vinsælda.
Athygli vekur að fjöldi gesta sem koma gagngert til Akureyrar til að sækja leiksýningar LA hefur margfaldast á síðustu misserum. Rekstur leikhússins hefur gengið vel í vetur og er ljóst að rekstrarniðurstaða leikársins er jákvæð og því er þetta þriðja leikárið í röð sem sú er raunin. Undirbúningur fyrir nýtt leikár er í fullum gangi en dagskráin í heild sinni verður kynnt í ágúst. Þegar hefur verið greint frá því að verkið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur verður fyrsta frumsýning leikársins 15. september nk. Sigurður Sigurjónsson leikstýrir og Jón Ólafsson semur sönglög og tónlist við verkið. 500 börn komu í áheyrnarprufur fyrir sýninguna en 16 börn hafa verið valin til að taka þátt í uppsetningunni við hlið fullorðinna atvinnuleikara.