Engin hátíðahöld á sjómannadaginn

Engin hátíðahöld verða á vegum sjómannadagsráðs á Akureyri í tilefni sjómannadagsins nk. sunnudag og segir Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, að ástæðan sé fjárskortur, ekki síst þar sem útgerðirnar í bænum leggi ekkert til hátíðahaldanna. Hollvinir Húna II eru þó ekki á því að hátíðahöld á sjómannadaginn leggist alfarið af og ætla að bjóða upp á kaffi um borð í bátnum nk. sunnudag frá kl. 15-16 og í siglingu í kjölfarið.

Konráð segir að styrkur útgerðanna hafi verið í formi þess að þær hafa boðið sínu fólki á sjómannadansleikinn á laugardagskvöldinu, sem hefur verið fjáröflun fyrir sjómannadagsráð til að geta haldið hátíð daginn eftir. Hann sagði að útgerðirnar væru hættar að kaupa miða fyrir sína sjómenn og að þannig hefðu hlutirnir verið að þróast undandarin ár. Miði á sjómannadansleikinn hafi verið dýr og sjómenn ekki séð sér fært að kaupa hann sjálfir. Hann sagði að félagið sæi sér ekki fært að gera þetta lengur, farið hafi verið fram á styrki í fyrra en þeirri málaleitan verið hafnað. „Það verður ekkert gert án peninga og því verður engin dagskrá í ár," sagði Konráð.

Hollvinir Húna ætla að sigla út í Bót eftir kaffið og flauta smábátaflotann út. Þeir skora á alla smábátaeigendur að sigla með Húna II inn á Poll og sýna alla glæsilegu bátana. Um kl. 17 á sunnudag ætti því að vera fjöldi báta á Pollinum.

Nýjast