Akureyringurinn og fyrrum leikmaður KA, Elmar Dan Sigþórsson, hefur ákveðið að söðla um í Noregi og mun yfirgefa knattspyrnufélagið Tornado Máloy sem leikur í 3. deild og mun ganga til liðs við 2. deildar liðið Forde.
Elmar gekk í raðir Tornado Máloy sl. vor og átti eitt ár eftir af samningi sínum við félagið en Forde náði samkomulagi við Tornado Máloy um að fá Elmar Dan í sínar raðir.
Elmar, sem er 27 ára gamall, verður löglegur með Forde 1. janúar næstkomandi. Hjá Forde mun Elmar hitti fyrir gamlan liðsfélaga sinn, Steinar Tenden, en þeir léku saman með KA sumarið 2003.