Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri á Akureyri segir að það sé ekki rétt hjá Höskuldi Stefánssyni eiganda verslunarinnar Síðu, að verið sé að ganga á rétt hans með frekju og yfirgangi, eins og fram kom í samtali við hann í Vikudegi nýlega. Honum var tilkynnt um samþykkt bæjarráðs þau áform að heimilt væri að reisa stúdentagarða á lóðinni með bréfi fyrir réttu ári síðan. Framkvæmdir við byggingu tveggja fjögurra hæða stúdentagarða á þessu svæði, þ.e. á horni Keilusíðu og Bugðusíðu, eru að hefjast og því styttist í að verslunarhúsið þurfi að víkja. Pétur Bolli sagði að ekki hafi verið stöðuleyfi fyrir versluninni á þessu svæði sl. fjögur ár, eða frá ágúst 2003 og að það hafi legið fyrir samkvæmt aðalskipulagi frá 1998 að nýta ætti reitinn undir íbúðabyggð og verslun. Hann sagði að Höskuldur hefði heldur ekki gert athugasemdir við tillögu að deilskipulagi svæðsins sem auglýst var á síðasta ári.
Pétur Bolli sagðist hafa gengið í það mál, að ósk Höskuldar, eftir fund með honum og bæjarlögmanni í mars í vetur, að verslunin fengi að vera í rekstri á svæðinu fram yfir nk. verslunarmannahelgi. Verktakinn P. Alfreðsson og Félagsstofnun stúdenta hafi gefið það eftir og skrifað undir samkomulag þar að lútandi til lausnar málinu. Höskuldur hafi hins vegar ekki mætt við undirskrift samkomulagsins eins og umsamið var. Pétur Bolli sagði að Höskuldur hefði einnig óskað eftir því að fá inni fyrir verslun sína í öðru hvoru nýju húsanna, eins og heimild er fyrir í deiliskipulaginu. Sér vitanlega hafi hann ekki óskað eftir því formlega við Félagsstofnun stúdenta, sem stendur fyrir framkvæmdinni.