Ekkert mark tekið á þeim tillögum sem við leggjum fram

„Við þurfum nauðsynlega að fara að sjá úrræði sem duga, eitthvað varanlegt sem gagnast fólki.  Stjórnvöld verða að gera eitthvað, þessi vandræðagangur hjá ríkisstjórninni er pínlegur," segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju.  Í nýlegri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Alþýðusambandið kemur fram að yfir 90% aðspurðra telja að ríkisstjórnin verði að gera meira til að mæta greiðsluvanda heimilanna og er mikil óánægja með aðgerðarleysi stjórnvalda.   

Þátttakendur vilja langflestir sjá niðurfellingu skulda eða lækkun höfuðstóls fasteignalána, aðgerðir þurfi að miða að því að koma til móts við fólk með síhækkandi húsnæðislán. „Okkur þykir ríkisstjórnin ekki vinna af fullum krafti að því að taka á þessum málum, heimilin í landinu þurfa varanlega lausn, eitthvað sem virkilega dugar," segir Björn.  Verkalýðshreyfingin hafi átt viðræður við stjórnvöld, viðrað ýmsar hugmyndir og tillögur um lausnir, „okkur hefur verið vel tekið, það vantar ekki, en hins vegar gerist ekki neitt, það virðist vera að ekki sé tekið neitt mark á þeim tillögum sem við leggjum fram."   Hann bætir við að sumum kunni að þykja það einkennilegt þar sem vinstri stjórn sé við stjórnvölinn, en að hans mati séu viðbrögð þessarar ríkisstjórnar og vilji til samvinnu við verkalýðshreyfinguna minni en á meðan hægri stjórn var við völd.

„Það hefur eitt og annað verið gert, en því miður er það alls ekki nóg.  Menn bíða og bíða eftir að eitthvað verði gert sem skilar árangri, smáskammtalækningar duga skammt," segir Björn og hvetur ríkisstjórnina til að herða róðurinn. Atvinnuástand sé líka með lakara móti um þessar mundir og telur Björn að sú stjórn sem nú situr þvælist fyrir varðandi það að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á ný.  „Það er því miður mikið atvinnuleysi hér á svæðinu og ég er hræddur um að næstu mánuðir verði þungir.  Það fór að draga verulega úr eftir áramótin og fátt sem bendir til að birti til á þeim vettvangi fyrr en með vorinu," segir Björn.  Hann segir menn halda að sér höndum enda mikil óvissa ríkjandi.

Nýjast