Ekkert æst í Naustahverfi

Guðmundur Víðir Gunnlaugsson, formaður Ungmennafélags Akureyrar, segist hafa heyrt á fólki í stjórn UFA að það sé ekkert æst í að frjálsíþróttaaðstaða verði byggð upp í Naustahverfi. Hann sagði að þegar það hafi legið fyrir að Akureyrarvöllur yrði lagður af hafi menn talið best að fara í samstarf við Þór vegna samlegðaráhrifa í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Eins og fram hefur komið gaf Ólafur Jónsson, formaður íþróttráðs, það út fyrir nokkru að uppi væru hugmyndir að byggja nýjan frjálsíþróttavöll í Naustahverfi. Þetta gerði hann í kjölfar þess að aðalfundur Þórs hinn 13. júlí sl. felldi samning sem gerður var 20. júní sl. um uppbyggingu á svæði Þórs. „Boginn er auðvitað á félagssvæði Þórs og við erum þar með vetraraðstöðu okkar. Þetta virkaði þannig á okkur að þar ætti að fara að byggja upp svæði sem var talið heppilegur kostur fyrir okkur að tengjast. Þótti sýnt að þessari uppbyggingu fylgdu ýmsir kostir fyrir okkur. Í upphafi voru skiptar skoðanir um þetta innan UFA. Eftir að ákveðið var endanlega að leggja af Akureyrarvöll, sögðum við á fundi með forráðamönnum Akureyrarbæjar að við sættum okkur ágætlega við þessa hugsanlegu uppbyggingu á Þórssvæðinu. Við töldum það langbesta kostinn fyrir okkur ef sátt væri um það."

Guðmundur sagðist hafa heyrt af því í fréttum að félagsfundur Þórs hafi fellt samning um uppbyggingu á svæði félagsins og nú væru uppi hugmyndir um uppbyggingu frjálsíþróttasvæðis í Naustahverfi. „Ég verð nú að segja eins og er að mér finnst hafa verið gengið framhjá Ungmennafélaginu með þá ráðstöfun. Maður heyrði þetta bara í fréttum, en vissulega eigum við fulltrúa í landsmótsnefnd sem er okkar tengiliður í þessu. Það má vel vera að það hafi verið talið nóg að hann flytti þessi boð á milli, sem hann og gerði. En ég lít samt svo á að þessi völlur eigi að vera byggður upp til framtíðar en ekki bara fyrir Landsmótið, þannig að ég hefði talið eðlilegt að okkur hefði að minnsta kosti verið tilkynnt að nú væri búið að fella úr gildi samning sem gerður hafði verið 20. júní. Ekki væri alveg ljóst með framvindu mála og þess vegna hefði þessi hugmynd um uppbyggingu í Naustahverfi komið upp og við því spurðir að því hvernig okkur litist á þessar hugmyndir. Það getur hins vegar vel verið að það standi enn til að kynna þetta fyrir okkur. Ég hef hins vegar heyrt að annar félagsfundur Þórs hafi samþykkt það að veita stjórn félagsins fullt umboð til samninga um uppbyggingu á svæði félagsins og því hafi stjórnarmenn Þórs nú farið aftur á stúfana og vilji viðræður við bæjaryfirvöld."

Guðmundur sagði að tíminn væri að hlaupa frá mönnum í þessu máli en tók samt fram að UFA myndi ekki troða sér fram í umræðunni. „Við höfum ekki haft okkur í frammi í þessu máli og því má ekki gleyma að bæði Þór og KA eiga sín svæði en við erum háðir bæjarkerfinu alveg með okkar aðstöðu. Því má segja að við höfum ekki átt heimtingu á neinu svæði, auk þess sem við erum mun minna félag en Þór og KA. En mér finnst samt að við mættum alveg fá meiri upplýsingar um gang mála. Við metum mikils ef Íþróttafélagið Þór vill halda áfram þessari uppbyggingu á svæði félagsins með okkur innanborðs og með þeim kröfum sem við gerum um uppbyggingu fullkomins frjálsíþróttavallar. En jafnframt viljum við ekki vera troða okkur inn ef fólk vill ekki fá okkur. Þess vegna höfum við haldið að okkur höndum í þessu máli og vonast til þess að það greiðist úr þessu."

Ólafur Jónsson formaður íþróttaráðs hafði samband við Vikudag eftir að þessi frétt fór í loftið og sagði að forsvarsmenn UFA hafi verið upplýstir óformlega um stöðu mála. Einnig hafi verið unnið að því að koma á fundi með félaginu og íþróttaráði en það hafi ekki tekist enn, m.a. vegna þess að menn væru í sumarleyfi. Ólafur sagði stefnt að því að koma á fundi sem allra fyrst.

Nýjast