Einkahlutafélag tekur við rekstri búsins á Möðruvöllum

Á starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Möðruvöllum í Hörgárdal hafa um árabil verið stundaðar rannsóknir í nautgriparækt og jarðrækt og hefur LbhÍ rekið þar tilraunabú. Áherslur í rannsóknum á starfsstöðinni að Möðruvöllum hafa að mestu flust frá nautgriparækt yfir í jarðrækt á umliðnum árum og þarfirnar því breyst að mörgu leyti. Engu að síður er talið mjög verðmætt fyrir staðinn og skólann að búskap sé haldið þar áfram.  

Búrekstur á staðnum auðveldar rekstur rannsóknaverkefna. auk þess sem svigrúm er þá til staðar til að færa áherslur aftur yfir í rannsóknir í nautgriparækt þegar henta þykir. Með hliðsjón af framansögðu leitaði LbhÍ eftir samstarfi við Búnaðarsamband Eyjafjarðar (BSE), Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga (BSSÞ) og Búnaðarsamband Norður-Þingeyinga (BSNÞ) um rekstur starfsstöðvarinnar á Möðruvöllum. Þessar umleitanir hafa nú leitt til þess að búnaðarsamböndin hafa stofnað einkahlutafélagið Möðruvelli ehf. er mun taka við rekstri búsins næstu árin.

Meginmarkmið með aðkomu búnaðarsambandanna þriggja að rekstri kúabús á Möðruvöllum er að tryggja áframhaldandi búrekstur og rannsóknastarfssemi á staðnum og skapa þannig aðstöðu fyrir starfsmenn LbhÍ og samstarfsmenn hans, bæði utan lands og innan, til rannsókna sem tengjast landbúnaði og umhverfismálum í víðum skilningi. Markmiðið er einnig að tryggja að arður af búrekstri skili sér til uppbyggingar og eflingar rannsókna á Möðruvöllum og styrki þannig rannsóknastarfssemi í landbúnaði á Norðurlandi. Þá mun búrekstur Möðruvalla ehf. sömuleiðis tryggja áframhaldandi upplýsingasöfnun á búinu á Möðruvöllum en þar er löng hefð fyrir mjög nákvæmri skráningu upplýsinga í búrekstri sem hafa nýst vel til búrekstrarathugana.

Þeir Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ og Sigurgeir Hreinsson fyrir hönd Möðruvalla ehf undirrituðu samninga í vikunni um kaup á bústofni og vélum búsins og leigu á landi og húsum. Við það tækifæri kom fram að þeir væntu þess að með samningnum yrði áfram tryggt að einstakir landkostir Möðruvalla ásamt sögu og hefð staðarins sem menningar- og menntaseturs nýttust til framfara í landbúnaði.

Nýjast