Sigrún Björk segir að Heilbrigðisstofnunin yrði nýr samningsaðili Akureyrarbæjar varðandi rekstur Heilsugæslunnar en sá samningur sem var í gildi við ríkið rann út núna um sl. áramót "þannig að það bíður okkar spennandi verkefni að fara í þær viðræður," segir hún.
"Ég tel rétt að í þeim viðræðum verði það markmið að leiðarljósi að bæta þjónustu við bæjarbúa eins og hægt er. Heilsugæslan hefur verið rekin undanfarin 12 ár af bænum og við höfum náð mjög góðum árangri með að samþætta hennar verkefni við önnur verkefni á sviðivelferðarmála og þannig nýtt fjármuni og starfskrafta betur. Ég tel að rekstur heilsugæslunnar eigi heima hjá sveitarfélögunum og það samstarf sem hefur verið ígangi hér á Akureyri sannar það," segir Sigrún Björk.
Baldvin Sigurðsson er ekki á sama máli og segir að sér lítist illa á og telur að þegar upp verði staðið muni slík hagræðing ekki skila neinum ávinningi. "Ég tel að þessi sameining muni minnka þjónstu fyrir okkur sem búum á Norðurlandi, sérstaklega þá sem búa á minni stöðunum, sagan sýnir að svo verður," segir hann. Þá bendir hann á það óhagræði sem fylgir því að þurfa að sækja þjónustu um lengri veg, en slíkt verði hlutskipti þeirra sem búi lengst frá Akureyri.