Ein með öllu verður haldin um verslunarmannahelgina að venju en þó í takt við nýja tíma, er fram kemur í tilkynningu. Þemað verður fjölskyldan og verður hátíðin með norðlensku sniði.
Fram kemur í tilkynningu að hátíðin verði full af smærri viðburðum alla helgina en Sparitónleikarnir, stærsta atriði síðustu ára, verða hins vegar ekki vegna fjöldatakmarkana. Þá verða Bíladagar haldnir á Einni með öllu en sú hátíð fer alla jafnan fram í kringum 17. júní.
Fjöldi norðlenskra listamanna munu vera með tónleika og aðra viðburði hér og þar um bæinn í bland aðra listamenn. Skógardagurinn verður haldinn í Kjarnaskógi og mömmur og möffins verða ásamt fleiri uppákomum og skemmtiatriðum í listigarðinum og tívolí verður í bænum.
Íslensku sumarleikarnir verða á sínum stað þar sem utanvegahlaupið Súlur Vertical verður með stærra og flottara sniði en þar bætist við Ultra vegalengd. Hjólamót Akureyri.bike verður á sínum stað og rafhjól fá sinn sess með skemmtilegri torfærutímatöku.