Eigum helmings möguleika

„Þetta verður erfitt verkefni fyrir okkur en við erum spenntir fyrir þessum leik og eigum helmings möguleika á sigri,“ segir Orri Freyr Hjaltalín leikmaður knattspyrnuliðs Þórs. Norðanmenn fá úrvalsdeildarlið Vals í heimsókn í kvöld í 32-liða úrslitum bikarkeppni KSÍ, Borgunarbikarnum, og hefst leikurinn á Þórsvelli kl. 19:15. Þórsarar hafa unnið alla sína þrjá leiki á heimavelli í 1. deild karla í sumar og ljóst að heimavöllurinn gæti vegið þungt í leiknum í kvöld.

 „Við ætlum okkur að halda áfram að vera taplausir á Þórsvelli og ég þekki það sjálfur að koma hingað sem gestur og það er engin óskastað. Við þurfum hins vegar að bæta okkar leik ef ætlum að ná að vinna Valsmenn því það hefur verið smá vorbragur á okkur þessa fyrstu leiki í deildarkeppninni. Það er hlutur sem þarf að laga,“ segir Orri. „Valsmenn hafa á að skipa mjög sterku liði og við verðum að ná toppleik til að sigra. Það er ekkert annað í stöðunni hjá okkur og við ætlum okkur yfir þessa hindrun,“ segir hann, en Þór lék til úrslita í keppninni í fyrra.

Valur hefur byrjað ágætlega í Pepsi-deildinni í sumar. Liðið situr í fjórða sæti deildarinnar með níu stig eftir sex leiki, hefur unnið þrjá leiki og tapað þremur, en Valur skellti Keflavík 4-0 í síðasta deildarleik á heimavelli. Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Vals, reiknar með erfiðum leik á Þórsvelli í kvöld og vill ekki meina að Valur sé sigurstranglegra liðið.

„Við erum að fara á mjög erfiðan útivöll en það er alltaf gaman að fara norður að spila. Þórsarar eru með mjög gott lið og ég held að þeir fari beint upp í úrvalsdeildina aftur. Ég tel liðin eiga jafna möguleika á að komast áfram og ég held að þetta verði svakalegur leikur,“ segir Atli.  

Nýjast