Dynheimaballinu bjargað

Dynheimaballið verður á gamla Oddvitanum.
Dynheimaballið verður á gamla Oddvitanum.

Eftir að fréttir bárust um að árlegu Dynheimaballi á Akureyri um verslunarmannahelgina væri úthýst fannst lausn á málinu. Í tilkynningu segir að undanfarin ár hafi Dynheimaball verið haldið á Sportvitanum eða gamla Oddvitanum og hefur húsnæðið þótt afar heppilegt fyrir dansleikinn. Nú hafa nýir eigendur hafið framkvæmdir en þar mun Heimskautasetur opna í ágúst næstkomandi.  

Aðalhvatamaður Heimskautasetursins er Arngrímur M. Jóhannsson og hófu hann og Davíð Rúnar Gunnarsson viðburðastjóri og einn af Dynheimadrengjunum strax viðræður um það hvort möguleiki væri á dansleikjahaldi í húsinu eftir að fréttir bárust af því að húsnæði vantaði. Þær viðræður gengu vel og varð ljóst að ekki þarf miklar framkvæmdir til þess að þarna geti farið fram dansleikur um verslunarmannahelgina.

Fyrir helgina verður settur upp hljóð-og ljósabúnaður en einnig verða settir upp barir sem munu gefa þeim fjölmörgu gestum sem mæta á Dynheimaball gott aðgengi að drykkjarföngum en það er Siggi Doddi og hans fólk sem mun sjá um veitingasöluna. Í tilkynningu segir að nú sé ekkert því til fyrirstöðu að halda dansleikina um næstu verslunarmannahelgi og geta dansþyrstir gestir tekið gleði sína á ný.

Á föstudagskvöldinu 31.júlí verður 80´s og 90´s dansleikur þar sem aldurstakmarkið er 25 ár. Á laugardagskvöldinu er svo 70´s og 80´s dansleikur þar sem er 35 ára aldurstakmark.

 

Nýjast