Dreptu mig …. Þú ert svo leiðinlegur röflari

Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Listin að rýna til gagns
Listin að rýna til gagns, eða gagnrýna með uppbyggilegum hætti er eitthvað sem við ættum að temja okkur og ekki forðast. Það má vissulega oft finna leiðir til að gera misgóða hluti enn betri, benda á það sem betur mætti fara. Koma með lausnir og hugmyndir um betri leiðir, það flokkast undir að vera lausnamiðaður og framsýnn.
Ekki vera geðluðra
Ekki viljum við heldur vera geðluðrur og hafa engar skoðanir á mönnum og málefnum. Það er ekki gaman að vera alltaf sammála síðasta ræðumanni og mega ekki ýta við skoðunum og venjum, með því að vera víðsýnn og horfa til umbóta. Það getur verið hressilegt að rökræða um landsins gagn og nauðsynjar, með málefnalegum hætti, og best er ef það er kryddað með visku og húmor.
Listin að röfla
Það eru til tvær tegundir að fólki sem röflar, þeir sem eru leiðinlegir og þeir sem eru ferlega leiðinlegir. Í seinni hópinn flokka ég þá sem ég kalla blásýruröflarar, það eru þeir sem eru svo leiðinlegir að maður hugleiðir hvort ekki sé blásýra í nánd, til að losna undan þessu röfli. Það virðist vera þjóðarsport hjá einstökum aðilum að röfla, röfla og röfla enn meira. Fjasa um það sama út í það óendanlega, þykjast vita betur en aðrir, setja sig á háan hest, án þess að koma með raunhæfar og jákvæðar leiðir til úrbóta.
Röflarar á netinu
Þessir ferlega leiðinlegu röflarar hafa síðustu ár fært sig upp á skaftið og fundið röfli sínu farveg á netinu. Þeir röfla nú eins og enginn sé morgundagurinn á kommentakerfi netmiðla, eða henda í sjóðheita færslu og röfla yfir öllu því sem þeir mögulega geta, og helst einhverju sem þeir hafa ekki vit á. Góða við það að við þurfum auðvitað ekkert að lesa þetta leiðinlega röfl þeirra, sleppa einfaldlega að lesa þessa neikvæðni. Það sem einkennir þó röfl þessara leiðinlegu röflara, að þeir fara ekki mjög á dýptina, lesa fyrirsagnir og hneykslast ógurlega á öllu hinu mögulega og ómögulega. Hafa uppi gífuryrði og fara í manninn en ekki málefnið, temja sér orðalag á netinu sem engum er sæmandi. Móðgast jafnvel fyrir hönd annarra vegna einhvers sem kemur þeim ekki við og þeir hafa ekki vit á.
Mitt framlag til röflsins
Ofangreint er mitt framlag til röflsins, og best að láta hér staðar numið. Fyrir þá sem vilja röfla, er gott að hafa í huga að rýna til gagns, jafnvel koma með leiðir til úrbóta. Tjá sig um málefni sem maður hefur einhverja grundvallarþekkingu á og helst hafa smá gaman af, krydda röflið með smá glettni, það myndi hjálpa.
Annars er ég góð og hlakka til að njóta sumarsins, án þess að röfla, ja nema kannski yfir veðrinu.

 

Nýjast