Hann segir að gripið verði til ýmissa ráða til að ná fram 200 milljóna króna sparnaði á yfirstandandi ári. Eitt þeirra er að draga úr afleysingum yfir sumartímann og lækka þannig launakostnað, þá verður minna umfang í rekstri skurðstofu en áður. „Sú starfsemi hefur dregist saman síðustu misseri enda er rekin einkaskurðstofa úti í bæ sem sinnir smærri verkefnum," segir Halldór.
Þá hafa ýmis launa- og kjaramál verið yfirfarin í því skyni að draga úr kostnaði og eins nefndi Halldór að starfsmenn Sjúkrahússins hefðu lagt fram margs konar hugmyndir að sparnaði og hagræðingu sem nýttist vel. „Þetta eru einkum fjórir þættir sem við höfum að leiðarljósi til að ná fram hagræðingarkröfum ríkisins, hver og einn hefur í för með sér um 30 til 50 milljóna króna sparnað. Við gerum okkur grein fyrir að þetta á verður erfitt, en okkur tókst að ná fram markmiðum um sparnað í fyrra og vonum að það takist líka í ár. Það er full ástæða til að þakka starfsfólki sem stóð sig með mikilli prýði þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Meðal þess ríkir mikill metnaður varðandi það að veita góða þjónustu þó minna fé sé nú til ráðstöfunar en verið hefur. Það er fyrst og fremst starfsfólkinu að þakka að okkur tókst að ná endum saman í fyrra. Það er ánægjulegt því ástandið hefði verið enn verra ef við hefðum dregið á eftir okkur skuldahala inn í nýtt ár," segir Halldór.