Inntak verksins eru áföll í lífi fólks og eftirmálar þeirra, nánar tiltekið ferlið sem einstaklingur gengur í gegnum eftir áfall og þær breytingar sem það hefur í för með sér. "Okkur finnst þetta heillandi viðfangsefni sem allir geta á einhvern hátt tengt við. Allir hafa lent í mótlæti, allir hafa misst. Verkið fylgir tveimur einstaklingum og tilraunum þeirra til að fóta sig við ókunnar aðstæður og koma lífi sínu í nýjan farveg eftir áfall," segir í fréttatilkynningu.
Sviðsmyndin er skírskotun í það að tilveran hafi umturnast og minnir sífellt á það sem hefur gerst og sýnir einstaklingana fasta í þessum erfiðu aðstæðum. Tónlistin verður blanda af raftónlist, fundnum hljóðum og frumsömdum melódíum fyrir strengi. Menningarfélagið stendur að þessu verkefni en félagið samanstendur af fjórum listamönnum sem koma úr ólíkum greinum listarinnar: samtímadansi, tónlist, vídeólist og búninga- og sviðsmyndahönnun. Þetta eru; Ásgeir Helgi Magnússon, dansari með B.A. gráðu í listdansi frá Listaháskóla Íslands. Inga Maren Rúnarsdóttir, dansari með B.A. gráðu í listdansi frá London Contemporary Dance School. Júlíanna Lára Steingrímsdóttir, nemi í búninga- og sviðmyndahönnun við Central Saint Martin College of Art and Design í London. Lydía Grétarsdóttir, tónlistarkona með B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands. Saman hefur hópurinn unnið tvö sviðsverk, Hljóðspor og Moment seen árið 2007 og gert tvær dansstuttmyndir í samstarfi við Þóru Hilmarsdóttur.
"Við vinnum á landamærum listgreina okkar og tökum öll virkan þátt í hugmyndavinnunni. Með því finnum við margþættara sjónarhorn á listina og lokaútkoman verður bæði frumleg og nýstárleg. Við viljum kanna nýja miðla og ný form í listsköpuninni."
Þrátt fyrir mikinn uppgang í leikhúslífi á Akureyri hefur dansinn verið af skornum skammti. Dans snertir við fólki á annan hátt en leikhús og aðrar sviðslistagreinar og okkur er í mun að dansmenning einskorðist ekki við höfuðborgarsvæðið. Útbreiðsla listdans á landsbyggðinni hefur ekki náð að fylgja sveiflu leiklistar og með þessu verkefni vonumst við til þess að vekja enn frekari áhuga fólks á Akureyri og nágrenni á listdansi sem og að sinna þeirri eftirspurn og þeim dansáhugamönnum sem þegar eru til staðar. Jafnframt viljum við beina sjónum annarra danslistarmanna á þá möguleika sem bjóðast utan höfðuborgarsvæðisins.
Verkefnið er styrkt af Evrópu Unga Fólksins, Leikfélagi Akureyrar og Point dans stúdíó.