Listdansskólinn Steps Dancecenter hélt glæstan dansviðburð á Akureyri síðast liðinn sunnudag í Hofi þar sem fleiri hundruð gesta nutu þess að sjá nemendur skólans stíga á svið með kraft, sjálfstraust og dansgleði.
Þema sýningarinnar var Ooog akskjón - Leikstjórar okkar tíma, þar sem nemendur frá tveggja ára aldri og yfir fimmtugt stigu á svið. Dansstílar á borð við Jazz, contemporary, stepp og hip hop settu eina kvikmynd eða teiknimynd í dansbúning eftir hvern leikstjóra. Má þar nefna Moulin Rouge, Pulp Fiction, Top Gun, Kung Fu panda og margt margt fleira.
Dansinn gegnir sífellt stærra hlutverki í menningar- og íþróttalífi Akureyrar, þar sem hann sameinar líkamsrækt, skapandi tjáningu og samfélagslega tengingu. Steps Dancecenter hefur um árabil verið vettvangur fyrir börn og ungmenni til að blómstra í gegnum hreyfingu og list ásamt dansi fyrir fullorðna, og hefur auk þess lagt sitt af mörkum til uppbyggingar menningarlífs bæjarins með fjölbreyttum verkefnum og sýningum.
„Við sjáum hvað dansinn hefur jákvæð áhrif – bæði á líkama og sál. Dansarar okkar styrkjast líkamlega, efla tjáningu, ná góðri samvinnu og læra að setja sér markmið. Þetta er menning, tómstundastarf og heilbrigð hreyfing í einu og sama formi,“ Segir Guðrún Huld Gunnarsdóttir eigandi Steps Dancecenter
Keppnisliðið hjá Steps hefur á síðustu vikum tekið þátt í undankeppni Dance World Cup og mun keppa á Global Dance Open næstu helgi. Stefnan er svo tekin á Global Dance Ope sem haldin er Birmingham í sumar, þar sem þau munu taka þátt í alþjóðlegri dansveislu með keppendum víðs vegar að úr heiminum.
Sumarönn Steps hefst 26. maí og stendur yfir í þrjár vikur með spennandi námskeiðum og dansnámi fyrir alla aldurshópa og reynslustig.Hægt er að sjá allar upplýsingar á steps.is
Frá þessu segir í tilkynningu frá Listdansskólanum
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Hofi s.l. sunnudag