17. júní hátíðarhöldin á Akureyri verða fjölbreytt að venju. Frá klukkan 12.45 13.30 verður hátíðardagskrá í Lystigarðinum, þar sem Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri spilar, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri flytur hátíðarávarp, Kirkjukór Akureyrarkirkju syngur , séra Hildur Eir Bolladóttir flytur hugvekju og Kristján Már Guðmundsson nemi við Giljaskóla flytur ljóð.
Að dagskrá lokinni verður skrúðganga frá Lystigarðinum að Ráðhústorgi þar sem fjölskyldudagskrá hefst klukkan 14 og stendur til 16.30. Þar koma fram m.a. Leikhópurinn Lotta, ávarp fjallkonu er í höndum Valdísar Eiríksdóttur og ávarp nýstúdents flytur Alda Karen Ólafsdóttir, Leikhópurinn Saga stígur á svið sem og Lilli klifurmús, Söngskóli Maríu og söngstjarnan Páll Óskar. Yfir daginn er einnig hægt að fara í boðssiglingu um Pollinn með Húna II, skoða bílasýningu Bílaklúbbs Akureyri sem haldin verður í íþróttahúsinu Boganum, fylgjast með sýningum Leikklúbbsins Lottu á verkinu um hana Gilitrutt, taka þátt í skátatívoli sem verður komið upp í miðbænum en það er einmitt Skátafélagið Klakkur sem skipuleggur alla dagskrána í miðbænum.
Kvöldskemmtunin hefst klukkan 20 á Ráðhústorgi með skátakvöldvöku og að henni lokinni hefst tónlistardagskrá þar sem fram koma m.a. tónlistarmaðurinn Kalli, Jónsi í Svörtum fötum, Regína Ósk og Ína Valgerður og Hvanndalsbræður. Dansfélagið Vefarinn verður með sýningu í göngugötunni og að henni lokinni mæta félagar úr Félagi harmonikkuunnenda með nikkurnar og spila fyrir dansleik. Nú sem endra nær munu nýstúdentar Menntaskólans á Akureyri marsera á Ráðhústorgi rétt fyrir miðnætti en það vekur alltaf mikla hrifningu.