Buðu lægst í Miðhúsabraut

Fyrirtækið GV gröfur ehf. átti lægstu tilboð í lagningu Miðhúsabrautar vestan Geislatúns á Akureyri en alls bárust tilboð frá þremur aðilum í verkið.  Samkvæmt útboði átti að skila tilboðum miðað við tvo skiladaga á fyllingum, verk A1, að þeim sé lokið fyrir 1. janúar 2008 og verk A2, að þeim sé lokið fyrir 20. apríl 2008.

GV gröfur buðu rúmar 96 milljónir króna í verk A1, sem er um 80% af kostnaðaráætlun og rúmar 89,3 milljónir króna í verk A2, sem er um 86% af kostnaðaráætlun. Alls var kostnaðaráætlun vegna A1 um 120,3 milljónir króna og vegna A2 um 103,3 milljónir króna. Klæðning ehf. bauð 110 milljónir króna í verk A1, eða um 91% af kostnaðaráætlun og 100 milljónir króna í A2, eða um 97% af kostnaðaráætlun. G. Hjálmarsson hf. bauð um 114,5 milljónir króna í A1, um 95% af kostnaðaráætlun og um 125,5 milljónir í A2, um 121% af kostnaðaráætlun.

Í útboðinu er um að ræða jarðvegsskipti, klapparskeringar, undirgöng, lagningu fráveitulagna og rafstrengja ásamt ljósastaurum í Miðhúsabraut, Brálund og Súluveg. Heildarlengd gatna er 2 km og skal verkinu að fullu lokið fyrir 15. júní á næsta ári.

Nýjast