Brugðið á leik á sýningu á Músagildrunni hjá LA

Brugðið var á leik á sýningu á Músagildrunni hjá Leikfélagi Akureyrar síðastliðið laugardagskvöld. Aðgöngumiðar giltu sem happdrættismiðar og í vinninga voru bækur eftir Agöthu Christie sem Bókafélagið Ugla gaf.  

Leikhússtjórinn steig á svið með pípuhatt sem í voru tölusettir miðar og fékk Ragnar Jónasson, mikilvirkan þýðanda bóka Agöthu Christie, sem var staddur á sýningunni upp á svið til að draga úr hattinum. Leikurinn féll vel í kramið hjá áhorfendum, enda vafalaust flestir gestirnir unnendur góðra glæpasagna. Þarna var jafnvel komin jólagjöfin fyrir einhvern vin eða fjölskyldumeðlim.

Sýningum á Músagildrunni fer fækkandi og lýkur í byrjun desember. Það er því hver að verða síðastur að bregða sér í Samkomuhúsið og verða vitni að mögnuðustu spennufléttu allra sakamálasagna, segir m.a. í fréttatilkynningu frá LA.

Nýjast