Börn utan Akureyrar fá ekki lengur inni á leikskólum

Skólanefnd Akureyrar hefur samþykkt að dvalarsamningur barna sem ekki eiga lögheimili í bænum verði ekki framlengdur eftir sumarleyfi, svo hægt sé að bjóða fleiri börnum á Akureyri pláss. Í dag eru 6 börn inni í leikskólunum á Akureyri sem eiga lögheimili í nágrannasveitarfélögunum. Síðastliðið haust voru 1.038 börn í leikskólum bæjarins en gætu orðið alls 1.083 næsta haust. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bókun á síðasta fundi skólanefndar, þar sem staðan í innritun barna í leikskóla vorið 2008 var m.a. kynnt. Þar segir ennfremur: Mismunandi er hvenær leikskólarnir geta tekið við nýjum börnum og getur inntökutímabilið staðið yfir frá maí til september ár hvert. Í þessari aðalúthlutun er fyllt í öll leikskólapláss sem losna vegna þeirra barna sem hætta. Eftir að inntökutímabili lýkur er lítil hreyfing á leikskólaplássum fram til næsta vors. Foreldrar fá sent bréf með upplýsingum um hvenær barn þeirra getur hafið leikskóladvöl sína strax og það liggur fyrir. Í dag er fjöldi barna í leikskólunum sem fædd eru 2002 og hætta vegna aldurs alls 241. Á umsóknarlistanum eru nú 257 börn sem fædd eru á árunum 2003-2006 þ.e. verða tveggja ára og eldri á árinu. Þetta þýðir það að núna þarf að fjölga plássum fyrir um 16 börn í skólunum til að öll börn á virka biðlistanum komist að til viðbótar við þá fjölgun sem gerð var á plássum í byrjun ársins en þá voru tekin inn 15 börn. Þessi fjölgun kemur m.a. til vegna þess að börnum á leikskólaaldri er að fjölga í bænum eða um 31 barn. Þau börn sem eru fædd árið 2006 og eru að koma inn í leikskóla eru 254, en fjöldi þeirra barna sem eru sex ára er 243.
Þetta hefur þau áhrif að eingöngu verður hægt að bjóða um 14 börnum fæddum í janúar 2007 leikskólapláss nú í haust. Heildarfjöldi barna í leikskólunum munu því vera 45 fleiri í haust en í fyrra og öll stöðugildin á deildum verða nýtt og einnig leikrými barnanna.

Nýjast