Borgarafundur um hátíðarhöld og viðburði

Akureyrarstofa hefur boðað til borgarafundar um hátíðarhöld og viðburði á Akureyri, í Ketilhúsinu þriðjudaginn 15. janúar nk. kl. 20.00. Ákvörðunin um að setja aldurstakmörk á tjaldstæði bæjarins um verslunarmannahelgina var t.d. umdeild og kemur vafalaust til umræðu á fundinum.

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri segir að margoft hafi verið búið að lýsa því yfir að óbreytt ástand gengi ekki lengur um þessa helgi. Hún tók þátt í málþingi á Akranesi á liðnu hausti, „Fyllerí eða fjölskylduhátíð” var yfirskrift þess en fjallað var um bæjarhátíðir, vandamál og úrlausnarmál sem þeim fylgja. Fleiri sveitarfélög en Akureyri hafa lent í svipaðri reynslu, Akranes, Ólafsvík og Hornafjörður svo dæmi séu tekin.

Þrátt fyrir að auglýstar séu fjölskylduhátíðir vilja þær leysast upp í eitthvað annað sem enginn hefur bönd á eða yfirsýn yfir. Á Akranesi var reynt að hafa hluta gesta innan rammgerðrar víggirðingar með strangri löggæslu sem dugði þó engan veginn þegar á reyndi. „En er það það sem við viljum? Ég held að við verðum að ræða þessa hluti út frá þessu sjónarhorni - hvar setjum við mörkin, er allt leyfilegt þessa einu helgi á ári? Og hvernig ætlum við að vinna þetta verkefni til framtíðar. Skipuleggjendur hátíðarinnar Einnar með öllu hafa talað um að svona hátíðir eigi sér ákveðinn líftíma, 5-6 ár, og þá er kominn tími til að staldra við og hugsa hlutina uppá nýtt og við erum á þeim tímamótum núna,” segir Sigrún Björk.

Nýjast