Fulltrúarnir sem um ræðir koma frá eftirtöldum:
Byltingu fíflanna
Borgarafundanefnd Akureyrar
Grasrót: Iðngarða og nýsköpunar
Almannaheillanefnd
Starfsendurhæfingu Norðurlands
Ungt fólk til athafna
Rósenborg: Möguleikamiðstöð
Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar
Vert er að vekja athygli á því að áheyrendum gefst tækifæri til að koma með fyrirspurnir og ábendingar í lok hverrar kynningar.
Í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 urðu borgarafundirnir á Akureyri til. Sigurbjörg Árnadóttir bar hitann og þungann af fundunum til að byrja með en upp úr áramótunum 2009 bættist henni liðsauki og á verulegt líf hljóp í fundarsókn Akureyringa og nærsveitunga um tíma. Borgarafundanefndin sem taldi fimm meðlimi vorið 2009 tók sér frí síðastliðið sumar en tók uppþráðinn aftur í haust.
Frá því í haust hefur þeim sem standa að fundunum farið fækkandi. Um þessar mundir sér Rakel Sigurgeirsdóttir ein um að undirbúa og halda utan um borgarafundina eins og Sigurbjörg í upphafi. Markmið fundanna hefur alla tíð verið það að vekja lýðræðislegar umræður um ýmis samfélagsleg málefni. Fundarsókn hefur alla tíð verið nokkuð góð. Náði hámarki upp úr áramótum í fyrra þar sem fundargestir fóru vel yfir 100 á fundum sem fjölluðu um niðurskurðinn í heilbrigðismálum og spurninguna um það hvort það mætti tengja efnahagshrunið við glæpsamlegt athæfi á við landráð. Það sem af er vetri hefur fundargestum farið fjölgandi eftir því sem liðið hefur á veturinn. Voru flestir á síðasta fundi sem fjallaði um sálarástand þjóðarinnar á krepputímum en gestir á þeim fundi voru einhvers staðar á milli 40 og 50.
Form fundanna hefur frá upphafi verið með þeim hætti að tveir til þrír framsögumenn hafa lagt inn stutt erindi varðandi viðfangsefni fundarins. Framsögumenn koma bæði úr hópi leikra og lærðra en það það fer mjög eftir viðfangsefni fundarins hverjir sitja í pallborði. Í nokkur skipti höfum við fengið þingmenn kjördæmisins til að taka sæti þar en oftast eru það fulltrúar sem starfa að þeim málum sem eru til umræðu hverju sinni í bæjarfélaginu hér. Pallborðið situr fyrir svörum fundargesta og tekur gjarnan við ábendingum líka.