Bólusetningarátak gegn svína- inflúensu í grunnskólum

Heilbrigðisyfirvöld hvetja landsmenn eindregið til þess að láta bólusetja sig gegn svínainflúensu A(H1N1) og verjast á þann hátt nýju áhlaupi veikinnar sem búast má við síðar á þessu ári eða því næsta. Bólusetning er besta vörnin gegn svínainflúensunni og það sem fyrst. Sóttvarnarlæknir hvetur starfsfólk heilsugæslna í landinu til að bólusetja í skólum og hefur Heilsugæslustöðin á Akureyri ákveðið að bjóða upp á bólusetningu fyrir nemendur í grunnskólum.  

Ekki er nauðsynlegt að fá upplýst samþykki foreldra fyrir þessari bólusetningu en foreldrum er gefinn kostur á að hafna bólusetningu fyrir börn sín. Þá eru foreldrar þeirra barna sem hafa verið bólusett með Pandemrix, bóluefni gegn svínainflúensu, beðnir um að láta skólahjúkrunarfræðing vita, segir í bréfi til foreldra.

Vinsamlegast hafið skriflegt samband við skólahjúkunarfræðinga, með bréfi eða tölvupósti fyrir 7. mars 2010. Netföng skólahjúkrunarfræðinga má finna á heimasíðum skólanna og HAK (Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri) www.akureyri.is/hak (undir Heilsugæslustöðin og netföng starfsmanna). Hafi boði um bólusetningu ekki verið hafnað munu skólahjúkrunarfræðingar og skólalæknar, í samstarfi við starfsfólk skólanna, bólusetja á tímabilinu 10. - 19. mars 2010. Nánari dagsetning á bólusetningum verður auglýst í hverjum skóla með tölvupósti til foreldra/forráðamanna og á heimasíðu skólans.

Nýjast