„Dorgað í djúpi hugans“ eftir Skúli Thoroddsen, lögfræðing er athyglisverð uppvaxtarsaga um veröld sem var á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.
„Allt sem þú ert er frá öðrum komið.“ Skúli pælir í merkingu þessara orða og fiskar upp lifandi atvik bernsku- og æskuáranna á myndrænan hátt – hvort heldur sem krakki á barnaheimili, unglingur í brúarvinnu fyrir norðan eða sveitastrákur hjá Moniku á Merkigili „Konunni í Dalnum og dætrunum sjö.“ Þá segir Skúli frá fyrstu ástinni, fer út í heim auk þess að bregða upp lifandi myndum af ættmennum sínum ýmsum og samferðafólki. Ljóðrænar lýsingar hans á náttúru landsins, tónlist og skáldskap tilverunnar gera þessa bók að sannkölluðum yndislestri, segir á bókarkápu.

Skúli Thoroddsen
...Monika „hafði fengið fálkaorðu fyrir að vera það sem hún var. Bóndi og ekkja í afdal. Guðmundur G. Hagalín skrifaði um hana bók, „Konan í Dalnum og dæturnar sjö.“ Hún átti að vísu líka strák, Skarphéðinn, sem ekki passaði inn í þennan fína bókartitil. Monika sagði mér síðar, að henni hafi þótt gaman að því að fá mig að Merkigili. Féllst á það fyrir orð Zóphóníasar. Henni féll illa umtalið fyrir norðan um Þorvald bróður minn sem hvorki var skírður né fermdur en var svo „skírður“ Hörgur upp úr brennivíni í fonti Möðruvallarkirkju tveim árum áður þegar krakkar úr Menntaskólanum á Akureyri „sungu messu“ í helgidóminum um miðja nótt. Gústi, síðar prestur, [séra Ágúst Sigurðsson] þjónaði fyrir altari, skírði og gaf saman skólasystkin og hélt blót. Sunginn var norskur hersálmur við óviðeigandi texta;
Guð tók allar mínar syndir
og fleygði á bak við sig, ...

Monika á Merkigili ásamt hrossinu Blesa
Bjössi Thor frændi minn, síðar flugstjóri, hringdi klukkum eftir miðnætti. Hörgárdalurinn vaknaði við vondan draum. Sveitin glaðvaknaði og Akureyrin hrökk upp af værum blundi við voðalega martröð um virðulega skólann sinn, menningarsetrið og þá ógæfusömu nemendur sem voru staðnir að verki. Það var mikið hneyksli að sproka um í ullarbænum. Allir þátttakendur guðlastinu voru reknir úr skóla. Monika átti ekki orð: „Hvað þó krakkaskammirnar skemmti sér, varla truflar það guð á himninum, hann sem fyrirgefur allt,“ og henni þótti það sérstakur heiður að fá mig að Merkigili, bróður Hörgs hins synduga og það var sko saga til næsta bæjar. Þannig var Monika. Fór sínar leiðir...“
„Ef frá er talið sement, baðkar, eldavél og sveitasími lætur nærri að nútíminn hafi sneitt hjá Merkigili á leið sinni um landið á sjötta ártug síðustu aldar. Enginn traktor. Ekkert rafmagn. Sláttuvél er dregin af tveim klárum. Á Merkigili lifa menn af sauðkindinni og kúnum sem hafa fóstrað mannkynið um aldir. Egg fást undan frjálsum hænum, allt í samræmi við búskaparhætti Íslendinga í þúsund ár. Ég tilheyri síðustu kynslóð fólks sem lifði af landsins gæðum að hætti landnámsmanna sumrin mín fjögur að Merkigili, frá sauðburði að haustréttum. Það er ómetanleg lífsreynsla sem hafði mótandi og sterk áhrif á mig eins og Monika fóstra mín og viðhorf hennar til lífsins. Á Merkigili er unnið eftir veðri og vindum og tekið mið af gangi sólar. Við förum í rúmið þegar degi tekur að halla og vöknum þegar búið er að sofa. Á útvarp er ekki hlustað nema veðurskeytin...“
„Það er enginn kotbúskapur á Merkigili eins út í Bólu. Þar búa bræður í rislitlum torfbæ og sötra kaffið af undirskál og bjóða gestum skörðótta skítuga bolla. Engin reisn yfir neinu á þeim bæ, nema kannski skáldskap Bólu-Hjálmars sem eitt sinn var þar ábúandi og stundum upp á kant við granna sína. Torfbær er að Tyrfingsstöðum á Kjálka. Gústi vinur minn átti að fara í þangað í sveit en Mónika kenndi í brjóst um hann.
„Hvað er að kenna í brjósti um?“ spyr ég.
„Það er að finna til í hjartanu af því að einhver á bágt, Skúli minn,“ segir Monika og gat ekki hugsað sér Gústa, borgarbarn í bæ úr torfi og grjóti þar sem flóin í veggjunum plagar mannfólkið og bítur. Hún tók Gústa til sín.
Skúli mun kynna og lesa úr bókinni í Pennanum/Eymundssyni Akureyri næstkomandi föstudag 14. nóvember., kl. 17:00. Ugla bókaútgáfa gefur út. Bókarkonfekt í boði.