Blood Harmony er samstarfsverkefni systkinanna Arnar, Aspar og Bjarkar Eldjárn sem hófst snemma árs 2020 þegar heimsfaraldurinn skall á og sökum hans voru þau flutt í heimahagana fyrir norðan.
Þau umbreyttu kjallaranum á æskuheimilinu Tjörn í upptökustúdíó og hófu að taka upp lög sem Örn og Ösp höfðu bæði samið í gegnum árin en aldrei fundið þeim farveg, fyrr en nú.
Sumarið 2021 héldu þau í sína fyrstu tónleikaferð um landið og síðan þá hafa þau komið fram á tónlistarhátíðum í Svíþjóð, Finnlandi og í Bretlandi. Systkinin hafa gefið frá sér fimm lög á streymisveitum og eru um þessar mundir að vinna í útgáfu breiðskífu.
Þau spila á Minjasafninu í kvöld kl 20.00, tónleikarnir eru hluti af Listasumri og er aðgangur ókeypis.