Oddur Helgi Halldórsson framkvæmdastjóri Blikkrásar sagði að blikkrör hafi til þessa verið keypt úr Reykjavík og flutt norður með miklum flutningskostnaði, enda taki þau mikið pláss og þoli illa hnjask. Vélin hefur verið sett upp í húsnæði Becromal í Krossanesi en þar er Blikkrás með umfangsmikið verkefni. Öll rörin í loftræstikerfið í verksmiðjuhúsnæði Becromal verða því framleidd á staðnum. Eftir að vinnu þar líkur verður vélin sett í húsnæði Blikkrásar og notuð til framleiðslu á rörum fyrir fyrirtækið og fleiri.
Oddur sagði að ef rörin í loftræstikerfið í Krossanesi hefðu verið flutt frá Reykjavík til Akureyrar hefði þurft 15 flutningabíla undir þau. Mun hagkvæmara sé að flytja rúllur með efni í röraframleiðsluna í heilu lagi norður. Oddur segir að verkefnastaðan hjá Blikkrás sé mjög góð um þessar mundir. Auk þess að vera með þetta stóra verkefni í Krossanesi, er Blikkrás einnig með stór verk í menningarhúsinu Hofi, Giljaskóla, áhorfendastúkunni á Þórssvæðinu og í nýbyggingu Háskólans á Akureyri. Alls starfa 15 manns hjá fyrirtækinu og sagðist Oddur frekar þurfa að fjölga starfsfólki en fækka.