Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar hefur ákveðið að ganga til samninga við óstofnað félag sem tengist kaffihúsinu Bláu könnunni um leigu á kaffihúsinu í Lystigarðinum. Tvö tilboð bárust og er leigutíminn tíu ár. Bærinn ákvað síðasta haust að rifta samningi við Veitingar ehf., þar sem félagið gat ekki með góðu staðið undir óbreyttum rekstri kaffihússins. Oddur Helgi Halldórsson formaður stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar segir að leigutekjur bæjarins lækki líklega um helming.
Úr því sem komið er, er ég þokkalega sáttur. Endurgreiðslutími fjárfestingarinnar verður lengri fyrir vikið, en við bindum vonir við að nýr leigutaki reki kaffihúsið af krafti.
Kaffihúsið í Lystigarðinum var reist árið 2012 í tilefni af 100 ára afmæli garðsins og 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar. Kaffihúsið er samtals 177,2 m2 með kjallara og stórri verönd.
karleskil@vikudagur.is