Björninn vann þriggja marka sigur gegn SA

Björninn hafði betur gegn SA í kvöld, 4:1, er liðin mættust í fyrsta leik úrslitakeppninnar í íshokkí karla í Skautahöll Akureyrar. Leikmenn Bjarnarins mættu gríðarlega sterkir til leiks í kvöld og það tók þá sjö mínútur að skora fyrsta mark leiksins en það gerði Einar Sveinn Guðnason. Áður en leikhlutinn var allur hafði Birgir Jakob Hansen bætt við öðru marki Bjarnarins, sem hafði 2:0 forystu eftir fyrsta leikhluta. 

Birgir Jakob var svo aftur á ferðinni fyrir Björninn á 11. mínútu annars leikhluta og kom gestunum í 3:0. Jón Benedikt Gíslason náði að minnka muninn fyrir SA í 3:1 tveim mínútum síðar og þannig stóðu leikar fyrir þriðja og síðasta leikhluta. 

Það var hins vegar Björninn sem átti lokaorðið í leikum í kvöld með marki sjö mínútum fyrir leikslok í þriðja leikhluta og þar var að verki Brynjar Freyr Þórðarson. Lokatölur 4:1 sigur Bjarnarins sem hefur tekið forystuna í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.  

Liðin mætast að öðru sinni í Skautahöll Akureyrar á morgun og hefst leikurinn kl. 17:00.

Nýjast