Björgvin Íþróttamaður Dalvíkur- byggðar í tíunda sinn í röð

Íþróttaður Dalvíkurbyggðar árið 2009 er Björgvin Björgvinsson en þetta er tíunda árið í röð sem hann hlýtur þennan titil. Björgvin er, eins og undanfarin ár, fastamaður í landsliði Skíðasambands Íslands og er án efa besti skíðamaður landsins í dag. Það hefur hann sýnt með frammistöðu sinni í skíðabrekkunum á liðnum árum.  

Hann er mikill keppnismaður og gefur allt sem hann á í íþrótt sína og hefur síðustu ár náð frábærum árangri í skíðabrekkunum. Björgvin æfir allt árið því hann tekst á við mörg stór verkefni á hverju ári, svo sem Evrópubikar, Heimsbikar og nú stefnir hann á Ólympíuleikana sem haldnir verða í Vancuver í Kanada í febrúar 2010. Árangur Björgvins á árinu var mjög góður en hann varð meðal annars þrefaldur Íslandsmeistari á skíðamóti Íslands sem fór fram í Hlíðarfjalli. Þá vann hann Eysteinsbikarinn í fjórða sinn, bikarinn er veittur fyrir besta samanlagðan árangur á skíðamótum sem íslenskir karlkyns skíðamenn taka þátt í ár hvert. Björgvin er á B styrk hjá Íþrótta og Ólympíusambandinu sem segir allt um getu hans í íþróttinni.

Besti árangur Björgvins á mótum erlendis er á árinu 2009 er þessi:
25. sæti í svigi á Heimsbikarmóti í Zagreb í Króatíu sem er besti árangur íslendings á Heimsbikarmóti síðan árið 2000.
19. sæti á svigmóti í Evrópubikar í Crans Montana
Þá náði Björgvin einnig mjög góðum árangri á fjölmörgum FIS og Evrópubikarmótum síðasta vetur.

Björgvin bætti stöðu sína á heimslistanum í svigi verulega á árinu og er í dag númer 75 með 11.30 FIS stig.

Nýjast