Togarinn Björgúlfur EA 312 hefur verið í flotkví Slippsins á Akureyri undanfarna daga. Kristján Salmannsson skipstjóri segir að unnið hafi verið að ýmsum uppfærslum og árvissu viðhaldi, slíkt sé gjarnan gert á sumrin. Greint er frá þessu á heimasíðu Samherja.
Góður undirbúningur mikilvægur
„ Núna var botninn hreinsaður og málaður, auk þess sem skipt var um botnstykki. Svo er farið yfir ýmislegt um borð, eins og gengur og gerist. Slippurinn hefur í gegnum tíðina þjónustað okkur frábærlega, enda mikil þekking innan fyrirtækisins. Sömu sögu er að segja um önnur fyrirtæki sem koma gjarnan að slíkum verkefnum. Þótt flestir í áhöfninni séu í fríi eru vélstjórarnir um borð, sem er nauðsynlegt. Þegar farið er í slík verkefni er lykilatriði að allir þættir séu vel undirbúnir, enda er um mikla teymisvinnu að ræða. Útgerðin hefur alla tíð staðið mjög vel að öllu viðhaldi og endurnýjun búnaðar.“
Skipstjóri frá upphafi
Öflugir lyftarar eru nauðsynlegirBjörgúlfur kom nýr til landsins í júní 2017 en skipið var smíðað í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi.
„ Ég hef verið skipstjóri á Björgúlfi frá því skipið var smíðað, sem þýðir væntanlega að manni líður vel um borð, skipið er afskaplega vel búið á allan hátt og ég hef verið svo lánsamur að hafa góða og samhenta áhöfn. Ég fer að vísu ekki í fyrsta túrinn eftir sumarstopp, en verð líklega á bryggjunni og fylgist með þessu glæsilega skipi sigla út Eyjafjörðinn,“ segir Kristján Salmannsson skipstjóri.