Bjarni besta hægri skyttan

Bjarni Fritzson svífur inn í teiginn í leik með Akureyri í vetur.
Bjarni Fritzson svífur inn í teiginn í leik með Akureyri í vetur.

Bjarni Fritzson, leikmaður og þjálfari Akureyrar, var valinn í úrvalslið N1-deildar karla í handknattleik fyrir nýafstaðið tímabil en liðið var kunngjört í lokahófi HSÍ á dögunum. Bjarni, sem leikur bæði í hægra horninu og hægri skyttu, var valinn besta hægra skyttan. Hann fékk einnig viðurkenningu fyrir að vera markahæsti leikmaður deildarinnar en hann skoraði 163 mörk í vetur. Maður lokahófsins var hins vegar Ólafur Bjarki Ragnarsson, leikmaður Íslandsmeistara HK, en hann var valinn besti leikmaður deildarinnar, besta vinstri skyttan, besti sóknarmaðurinn og fékk þar að auki Valdimarsbikarinn, en hann er veittur þeim leikmanni sem þykir sá mikilvægasti í deildinni.

Úrvalsliðið fyrir tímabilið 2011-2012 er þannig skipað: Markvörður: Aron Rafn Eðvarðsson Haukum, línumaður Atli Ævar Ingólfsson HK, vinstra horn Bjarki Már Elísson HK, vinstri skytta Ólafur Bjarki Ragnarsson HK, hægra horn Gylfi Gylfason Haukum, hægri skytta Bjarni Fritzson Akureyri og miðjumaður Örn Ingi Bjarkason FH.

Önnur helstu verðlaunin í lokahófinu voru þannig að besti varnarmaðurinn var valinn Matthías Árni Ingimarsson Haukum, Aron Rafn Eðvarsson Haukum besti markvörðurinn, Böðvar Páll Ásgeirsson Aftureldingu efnilegasti leikmaðurinn, Aron Kristjánsson Haukum besti þjálfarinn og þeir Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson besta dómaraparið.

Nýjast