Sigurvegari í stuttmyndakeppninni Stulla í ár var Birgir Orri Ásgrímsson nemandi í Brekkuskóla. Myndin ber titillinn Sveitapiltur og þótti að mati dómnefndar bera af hvað varðar persónusköpun, myndatöku og klippingu. Birgir Orri fékk í verðlaun 100.000 krónur. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Stuttmyndakeppnin Stulli er árleg stuttmyndakeppni fyrir ungt fólk á aldrinum 13 til 18 ára og er á vegum Ungmenna-Hússins Rósenborgar. Keppnin var haldin við hátíðlega viðhöfn í Hömrum í Hofi fimmtudagskvöldið 11. apríl. Þátttökumet var slegið í ár en alls bárust 15 stuttmyndir í keppnina.