Birgir og Ólína kjörin í stjórn KEA á aðalfundi

Hannes Karlsson formaður stjórnar KEA og Björn Friðþjófsson varaformaður, voru endurkjörnir í stjórn félagsins á aðalfundi í Ketilhúsinu í kvöld. Ólína Freysteinsdóttir verkefnisstjóri hjá RHA og Birgir Guðmundsson dósent við HA koma ný inn í stjórnina en Birgir var varamaður í stjórn félagsins. Kosið var um fjóra af sjö stjórnarmönnum félagsins að þessu sinni en þau Úlfhildur Rögnvalsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.  

Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, sem var í varastjórn KEA og Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor og sérfræðingur við RHA, gáfu einnig kost á sér í aðalstjórn en náðu ekki kjöri. Bæði voru þau kosin í varastjórn félagsins, sem og Friðjón G. Jónsson starfsmaður MS á Akureyri.

Hagnaður KEA eftir skatta nam 276 milljónum króna á síðasta ári en árið 2008 varð rúmlega 1,5 milljarða króna tap á rekstri félagsins. Hagnaður fyrir reiknaða skatta í fyrra nam 300 milljónum króna. Heildareignir félagsins nema rúmlega 4,3 milljörðum króna og er félagið nánast skuldlaust. Eigið fé var rúmir 4,1 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall var 96%.

Nýjast