Samþykkt hefur verið í umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrar að taka tilboði frá Finni ehf í stækkun á bílaplani við Hof. Bílastæðið verður stækkað á svæði sunnan við líkamsræktarstöð World Class og bætast þá við um 30 bílastæði.
Tvö tilboð bárust, frá Finni ehf, um 69 milljónir króna sem er 93% af áætluðum kostnaði og þá bauð fyrirtækið Geitur og gröfur 75,6 milljónir, 101% af kostnaðaráætlun. Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar hjá Akureyrarbæ segir að verktími sé nokkuð frjáls, en hann þurfi að vera í góðu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu. Verklok eru áætluð vorið 2026.
Talsverðar framkvæmdir hafa verið við stígagerð á Akureyri í sumar eða eru að fara af stað. Þannig er jarðvegsskiptum lokið við kirkjugarðsstíg, en eftir er að malbika hann og setja upp lýsingu. Jarðvegsskipti eru í gangi um þessar undir á Hamrastíg, sem er stígur frá Kjarnavegi og upp að tjaldsvæðinu að Hömrum.
Leirustígur á lokametrum
Jónas segir að vonandi nái Leirustígur að komast á lokametrana innan skamms. Fyrri hluta verksins er svo gott sem lokið, þ.e. þegar lokið verður við að setja upp vigt á vigtarplani Vegagerðarinnar. Seinni hluti verksins snýst um gerð fjögurra áningarstaða og hófst hann nú á senn liðnu sumri í krikanum vð Drottningarbraut og væntir hann þess að verktakinn, Finnur efh hefjist handa innan tíðar við hellulagnir og fleira þar .
Skarðshlíðarstígur
Fjögur tilboð bárust í annan áfanga Skarðshlíðarstígs (frá Sunnuhlíð og niður fyrir Íþróttasvæði Þórs við Melgerðisásinn) en það verkefni verður einkum unnið á næsta ári. Um er að ræða stofnstíg og aðgerðir tengdar umferðaröryggi. Lægsta tilboð var frá Geitum og gröfum, ríflega 129 milljónir, 90% af áætluðum kostnaði sem var 144 milljónir með virðisaukaskatti. Fyrirtækið FSNO bauð líka lægra en kostnaðaráætlun en Dalverk og Nesbræður buðu hærra.