Betur gengur að ráða lækna á SAk

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Betur hefur gengið að ráða sérfræðilækna og unglækna á Sjúkrahúsið á Akureyri undanfarin ár. Sérfræðilæknar á borð við svæfingalækna og bæklunarskurðlækna hafa verið fastráðnir og vonast er eftir að lyflæknir verði fastráðinn á næstu vikum. 

„Þetta er mun betra ástand en oft áður,“ segir Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga á SAk. „Auk sérfræðilækna höfum fengið góðan hóp af unglæknum til starfa en mikilvægt er að ná til nýrra lækna sem fyrst í ferlinu. Þá höfum við nýráðið þvagfæraskurðlækni og tvo aðra skurðlækna. Þótt við höfum ekki getað fyllt í allar stöður þá eru margir sem koma aftur og aftur í afleysingar og þannig verður rennslið betra en oft áður. Á langflestum stöðum er þjónustan í þokkalegu standi,“ segir Sigurður.

Erfiðlega hefur gengið að fá sérfræðilækna til starfa á Akureyri síðastliðin ár og fáar, stundum engar, umsóknir borist um auglýstar stöður. Sigurður segir marga þætti spila inn í að nú horfir til betri vegar í þessum efnum.

„Betri efnahagur hefur tvímælalaust mikil áhrif og bjartara framundan þar. Þeir sem búa erlendis eru meira tilbúnir í að koma heim. Einnig höfum við verið í samvinnu við Akureyrarbæ varðandi komu nýrra sérfræðilækna. Þegar læknarnir koma hingað með fjölskyldurnar fá þau fund með fulltrú­ um frá bænum og fara yfir menninguna, skólana, íþróttastarf og fleira. Þetta hefur gefið mjög góða raun og í
takt við Evrópuverkefni (Recruit and Retain) sem við höfum verið að vinna í. Sem dæmi var erlendur læknir að kaupa sér sveitabæ hér á svæðinu og ætlar líklega að setjast hér að. Þannig að við erum að gera eitthvað rétt.“

Spurður hvort vanti í margar stöð­ur nefnir Sigurður helst í lyflækningum, bráðalækningum, myndgreiningalækningum og barnalækningum.

„Við mættum vera betur mönnuð á þessum deildum og þarna kreppir mest að. Þótt við séum þokkalega mönnuð í dag almennt séð þá þarf að huga að endurnýjun þegar horft er til framtíðar því læknar eru að eldast,“ segir Sigurður.

Nýjast