Beint tengiflug frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll hefst á morgun

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Á morgun, fimmtudaginn 7. júní, hefst beint tengiflug Icelandair frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll við helstu áfangastaði félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Áætlað er að fyrsta vélin lendi kl. 17.30 á morgun og verður tengiflugið alla jafna í boði á sunnudögum, mánudögum, fimmtudögum og föstudögum. Tímasetningar á fluginu í sumar verða miðaðar við það að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggi sem best við þessu tengiflugi, til dæmis New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Bandaríkjunum og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Osló í Evrópu. Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10. Þannig skapast góð tenging við komutíma frá helstu áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50 flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.

„Það er spennandi að bæta Akureyri sem nýjum áfangastað inn í leiðakerfið okkar og tengiflugið sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með þessum hætti erum við að opna nýja leið fyrir ferðamenn frá fjölmörgum öðrum borgum í leiðakerfi okkar til Akureyrar. Akureyri opnast í bókunarkerfum um allan heim sem áfangastaður Icelandair og við teljum okkur vera að færa Akureyri og perlur Norðurlands nær erlendum ferðamönnum og styrkja þannig undirstöður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi,” segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Við teljum líka að það séu mikil þægindi fólgin í því fyrir heimamenn og ferðamenn að geta innritað sig alla leið frá flugvellinum á Akureyri. Þannig teljum við að þetta nýja flug geti bæði nýst íbúum Norðurlands sem og erlendum ferðamönnum.”

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir Akureyringa fagna allri uppbyggingu í ferðaþjónustu á Íslandi og sérstaklega á Akureyri og Norðurlandi. "Það felast mikilvægt tækifæri í því að Akureyri og Akureyrarflugvöllur tengist bókunar- og leiðarkerfi Icelandair. Akureyri og Akureyrarflugvöllur verður sýnilegri sem áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn og í því eru tækifæri til frekari uppbyggingar og markaðssetningar svæðisins", segir hann. Eiríkur leggur áherslu á að tenging Akureyrar- og Keflavíkurflugvallar dragi síður en svo úr mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og staðsetningar hans í Vatnsmýrinni fyrir innanlands- og sjúkraflug. "Akureyrarbær óskar Icelandair velfarnaðar í rekstri þessarar flugleiðar og væntir þess að allir ferðaþjónustuaðilar á Norður- og Austurlandi njóti góðs af", segir Eiríkur Björn Björgvinsson.

Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar en fréttin er byggð á frétt á heimasíðu Icelandair.

Nýjast