Batnandi ástand á vinnumarkaði

Þetta er alltaf að breytast. Við erum með þessa stundina um 1269 umsækjendur, sem er gríðarlega lágt því við vorum með vel yfir 1600 í mars. Þetta er aldeilis frábært en þetta er samt mjög fljótt að breytast,” segir Soffía Gísladóttir hjá Vinnumálastofnun Norðurlands eystra, um stöðu atvinnuleysis hér í Eyjafirði.  Hún segir ástandið vera að batna en á sama tíma finna þau fyrir auknum erfiðleikum fyrirtækja. „Þetta er svona beggja blands, allur þjónustugeirinn er að rjúka upp núna og fólk er að fara inn í störf þar, bæði í sumarstörf og framtíðarstörf. Þjónustugeirinn er að eflast en á sama tíma er hinsvegar mjög svart framundan í byggingargeiranum.” Soffía segir að lítið hafi verið um að skólafólk leitaði til þeirra í vor vegna vinnu, einfaldlega vegna þess að flestir hafa fengið eitthvað að gera. Hún segir að von sé á samdrætti aftur með haustinu og meginverkefni Vinnumálastofnunnar sé undirbúningur fyrir haustið. „Við vitum að byggingargeirinn mun ekki fara af stað aftur, nema eitthvað mikið gerist, þannig að við vitum að við eigum von á fjölda manns þaðan sem eru ekki komnir inn. Þá er ekki ólíklegt að með haustinu fari þjónustufyrirtækin að koma inn til okkar með starfsfólk. “ Soffía segir það hinsvegar vera mjög jákvætt hvað fyrirtæki hér á Norðurlandi hafa verið dugleg að skerða frekar starfshlutfall og halda í fólkið, í stað þess að segja upp fólki. „Það er áberandi hér á Norðurlandi eystra hvað það hefur verið mest nýtt hér og það er frábært” segir Soffía.

Nýjast