Senn lýkur fjársöfnun til stuðnings Unni Maríu Hjálmarsdóttur í alvarlegum veikindum hennar. Þrjár frænkur hennar á höfuðborgarsvæðinu, Sigrún K. Óskarsdóttir, Halla Jónasdóttir, og Ingigerður Snorradóttir, hafa haft frumkvæði að söfnuninni. Þær þakka undirtektirnar og hvetja um leið til þess að vinir, vandamenn og aðrir leggist á árar með þeim á lokasprettinum til að verkefninu ljúki með stæl.
Unna Maja er Dalvíkingur að uppruna og núna starfsmaður á sambýli fatlaðra á Akureyri. Hún greindist með krabbamein í apríl síðastliðnum og gengur í gegnum erfiða meðferð; geisla fyrir sunnan í vor, lyfjameðferð fyrir norðan núna og trúlega geislameðferð á nýjan leik fyrir sunnan. Okkur þótti ófært annað en en frænka okkar réði yfir fartölvu til að geta verið í sambandi við börnin sín og barnabörn á þessum erfiðu tímum fyrir hana og aðstandendur hennar. Við hófum söfnun innan Jónshúsættarinar á Dalvík og fljótt kom í ljós að fleiri vildu leggja hönd á plóg. Við höfum þegar keypt og afhent Unnu Maju fína tölvu, tilheyrandi hugbúnað og fylgihluti. Hún er því komin í samband við umheiminn, skrifast á við sitt fólk og tekur á móti straumi stuðningskveðja á Fésbókinni, segja þær frænkur.
Góð heilsa verður ekki metin til fjár. Það vita þeir best sem verða fyrir alvarlegum heilsubresti og sjá fram á óvissa framtíð af því tilefni. Eitt er að glíma við sjúkdóm, annað er fást jafnframt við fjárhagsáhyggur. Unna Maja kvartar ekki, æðruleysi hennar er ótrúlegt og ætti að vera okkur öllum til umhugsunar og eftirbreytni. Við vitum að hún þarf að standa straum af verulegum útgjöldum sem tengjast veikindunum. Lyf kosta sitt, blóðprufur líka og sitthvað fleira. Þar getum við komið til skjalanna og létt ögn undir með henni. Söfnunin ber yfirskriftina; Baráttukveðjur til Unnu Maju. Sérstakur reikningur var opnaður í Sparisjóði Svarfdæla og Sigurlaug Stefánsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Dalvíkur, gerðist trúnaðarmaður söfnunarinnar. Söfnunarreikningurinn er á kennitölu hennar og hún ein hefur aðgang að honum. Að söfnun lokinni verða peningarnir afhentir Unnu Maju, reikningnum lokað og gögnum eytt, segja þær frænkur ennfremur.
Baráttukveðjur til Unnu Maju: 1177-15-200602, kt. 070552-4189