“Bærinn er fullur af fólki allar helgar“

"Það hefur verið mjög líflegt hjá okkur í vetur, mikil umferð og greinilega mikið um ferðamenn í bænum um helgar," segir Guðmundur Karl Tryggvason veitingamaður á Bautanum.  Hann segir að skíðafólk sé áberandi, sem og skólahópar og fólk á leið í leikhús.  „Og svo eru stór fótboltamót framundan í bænum, þannig að ég er bjartsýnn á að áfram verði mikið að gera hjá okkur," segir hann. „Bærinn er fullur af fólki allar helgar."  

Guðmundur Karl segir að Íslendingar ferðist innanlands í auknum mæli og hafi gert síðastliðin misseri, eða frá efnahagshruni og bær eins og Akureyri njóti góðs af, fólk sem ella hefði farið til útlanda komi í miklum mæli norður í land.  Ferðamenn eru þannig áberandi, en Guðmundur Karl telur að Hlíðarfjall hafi mesta aðdráttaraflið yfir vetrarmánuðina.

Á virkum dögum eru það svo heimamenn sem sækja Bautann heim, en nýverið fór veitingastaðurinn af stað með sprengitilboð, svonefndan „þúsund kall" en gestir geta þá valið á milli nokkurra rétta og greitt 1000 krónur fyrir. „Þessu tilboði hefur verið gríðarlega vel tekið og við erum mjög ánægðir með viðtökurnar," segir Guðmundur Karl.

Hann segir að vissulega sé rekstarumhverfið erfitt um þessar mundir, allt hráefni hafi hækkað í verði.  „Menn eru mjög ragir við að velta hækkunum út í verðlagið, þannig við reynum að spila eins konar millileiki.  Fólk vill eftir sem áður gera sér dagamun og fara út að borða en við tökum eftir því að flestir velja rétti í ódýrari flokkum," segir hann.

Þorrinn er nú að ganga í garð og segir Guðmundur Karl að þorramatur hafi hækkað mikið í verði á milli ára.  Eftir sem áður haldi menn þorrablót og sér Bautinn um fjölmörg stærri blót fyrir sveitarfélög og félagasamtök. 

Nýjast