„Bæjarstjórn Akureyrar hefur hagað sér þannig að hún á að segja af sér. Vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda um að banna ákveðnum hópi fólks að tjalda á Akureyri um verslunarmannahelgina sitja veitingamenn á Akureyri uppi með tuga milljóna króna tjón og bæjarstjórnin sem sveik loforð um framkvæmd á tjaldsvæðunum um þessa helgi á að sjá sóma sinn og axla ábyrgð í málinu," segir Birgir Torfason veitingamaður á Akureyri sem hefur hrint í framkvæmd undirskriftasöfnun á Akureyri um að bæjarstjórnin segi af sér. Birgir rekur veitingastaðina Kaffi Akureyri og Vélsmiðjuna. Hann segir að matvæli sem veitingamenn höfðu pantað frá birgjum fyrir verslunarmannahelgina séu farin að skemmast og sjálfur segist hann byrjaður að henda matvöru sem hafi verið orðin ónýt. Bæjaryfirvöld hafi unnið þetta tjaldsvæðmál eins og hálfvitar og látið skátana leiða sig í ógöngur og bæjarstjórnarmeirihlutinn þurfi „spark í afturendann" eins og hann orðaði það. Birgir segir að undirskriftalistar muni liggja frammi víða í bænum á næstu dögum vegna málsins.