Bæjarráð samþykkir eftirfarandi athugasemdir við drög að nýrri samgönguáætlun:
1. Akureyrarflugvöllur
Bæjarráð leggur mikla áherslu á nauðsynlega stækkun flugstöðvar og flughlaðs vegna öryggis og aukinnar umferðar.
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að ráðist verði í þessi verkefni með sérstakri fjármögnun
samkvæmt ákvörðun Alþingis. Bæjarráð leggur áherslu á að þessi aðferð megi ekki leiða til sérstakra skatta
á þá sem um völlinn fara.
2. Vaðlaheiðargöng
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að ráðist verði í þetta verkefni með sérstakri fjármögnun
samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Bæjarráð væntir þess að samkomulag náist við lífeyrissjóðina um
þessa framkvæmd en vill benda á að til þess að væntanleg veggjöld verði innan skynsamlegra marka þurfi ríkið að leggja fram
fjármuni til verksins.
3. Hafnamál
Hafnasamlag Norðurlands gerir athugasemdir við þann hluta áætlunarinnar sem lýtur að þeirra starfsemi og mannvirkjum.
4. Samgöngur milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins
Bæjarráð ítrekar fyrri ályktanir sínar um nauðsyn þess að stytta vegalengdir milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins.
Flutningskostnaður er alltof hár í dag og brýn nauðsyn að lækka hann.
5. Fjármunir til þjóðvega á Akureyri
Bæjarráð ítrekar erindi bæjarstjóra dags. 17. mars 2010 til Samgönguráðs þar sem þess er óskað að tryggðir
verði fjármunir til mikilvægra verkefna til þjóðvega á Akureyri í Samgönguáætlun 2009-2012.