Hlín Bolladóttir, bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri, segir ímynd Oddeyrarinnar í bænum vera alvarlegt mál og það sé samfélagslegt verkefni allra bæjarbúa að takast á við vandann. Í frétt Vikudags í síðustu viku kom fram að ímynd Oddeyrar væri neikvæð og skæri sig úr öðrum hverfum bæjarins.
Fréttin kom mér ekki á óvart þar sem ég kannast við þessa umræðu úr bænum. Hverfið er talað niður af öðrum og sem formaður samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrar er ég mjög sorgmædd yfir því að svona fordómar skuli þrífast í okkar litla samfélagi, segir Hlín. Hún hefur búið á Oddeyrinni í um tvö ár og því ekki rétt sem kom fram í frétt Vikudags í síðasta blaði að enginn bæjarfulltrúi væri búsettur í hverfinu.
Hlín hefur starfað sem kennari við Oddeyrarskóla í fjögur ár og er því í góðum tengslum við börn og unglinga á Eyrinni, eins og Oddeyrin er jafnan kölluð í daglegu tali. Hún segir kennara í Oddeyrarskóla hafa markvisst unnið að því að efla sjálfsmynd nemenda undanfarin ár.
Ítarlega er rætt við Hlín í prentútgáfu Vikudags.