Friðbjarnarhús er talið byggt árið 1856. Húsið er kennt við Friðbjörn Steinsson, bókbindara, bóksala og bæjarstjórnarmann til fjölda ára. Á heimili Friðbjarnar var Góðtemplarareglan á Íslandi stofnuð og keypti reglan húsið árið 1961 til að koma þar á fót minjasafni. Húsið var friðað samkvæmt þjóðminjalögum árið 1978 og hefur húsfriðunarsjóður veitt viðurkenningar fyrir endurbætur og varðveislu þess. Í Friðbjarnarhúsi gefst mönnum kostur á að kynnast sögu og starfsemi Góðtemplarareglunnar til þessa dags, segir um húsið á vef Akureyrarbæjar.