Innanríkisráðherra hefur lagt fram frumvarp um algjört bann við áfengisauglýsingum. Verði frumvarpið að lögum má sekta einstaklinga, fyrirtæki og fjölmiðla um allt að 10 milljónir króna fyrir svo mikið sem láta sjást í bjórdós eða tjá sig um rauðvín, ef það gæti flokkast sem “viðskiptaorðsending.” Verði fraumvarpið að lögum, á það að taka gildi 1. júlí nk.
Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins, Samband íslenskra auglýsingastofa og Viðskiptaráð, hafa sent frá sér fréttatilkynningu, þar sem fram kemur að þeir aðilar telja frumvarpið óraunhæft og algjöra tímaskekkju. Áríðandi sé að fraumvarpið verði dregið til baka og að fundnar verði raunhæfari lausnir. Kannanir sýni að auglýsingar auki ekki neyslu heldur færi neysluna á milli vörutegunda.
“Augljóst er að banni þessu er ætlað að stoppa í þau “göt” á áfengislögunum sem hafa gert ýmsa kynningu á bjór og léttvíni mögulega. Furðu vekur að bannleið skuli farin, fremur en huga að því að leyfa áfengisauglýsingar með ströngum takmörkunum, eins og tíðkast víðast hvar erlendis. Fyrirhugað bann á eingöngu við um Íslendinga, íslensk fyrirtæki og íslenska fjölmiðla. Áfengisauglýsingar í erlendu sjónvarpsefni sem sent er út hér á landi, netmiðlum og útlendum blöðum hér á landi verða undanþegnar þessu banni. Útlendir bjórframleiðendur geta því kynnt vöru sína, en ekki íslenskir. Það hlýtur að vera einsdæmi að stjórnvöld setji lög sem hygla erlendri starfsemi á kostnað innlendrar,” segir í fréttatilkynningunni.
Unnsteinn Jónsson verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri segir að íslenskir framleiðendur séu mjög ósáttir við frumvarpið en Vífilfell er stærsti bjórframleiðandi landsins. Hann segir að íslenskir framleiðendur hafi við næg vandamál að glíma og að þetta fraumvarp sé ekki á bætandi. Mjög erfitt sé t.d. að koma nýrri framleiðslu á markað í dag en það verði ómögulegt verði frumvarpið að lögum.
Áðurnefndir aðilar telja að Íslendingar þekki orðið vel til auglýsinga og kynninga á bjór og léttvíni, þannig að lögleiðing breyti ekki miklu. “Bann við áfengisauglýsingum mun hafa neikvæð áhrif á listviðburði og tónleikahald og jafnvel þýða endalok vinsælla viðburða. Ennig verður lokað fyrir stuðning við matreiðsluþætti og lífsstílsþætti í sjónvarpi og tímaritum, en slík umfjöllun hefur einmitt stuðlað að ábyrgri og hófsamri notkun áfengis.”
Einnig er í fréttatilkynningunni bent á að ótakmörkuð markaðsyfirráð erlendra bjórframleiðenda verði rothögg fyrir íslensk iðnfyrirtæki. Nýsköpun, vöruþróun og uppbygging á landsbyggðinni leggist af.