Akureyri Handboltafélag endurheimti annað sætið í N1- deild karla í handbolta í kvöld er liðið lagði Stjörnuna að velli með fimmtán marka mun, 36:21, í Íþróttahöllinni á Akureyri. Stjörnumenn geta þakkað markverði sínum, Svavari Má Ólafssyni, fyrir að tapa ekki stærra en Svavar átti mjög góðan leik í marki gestanna og varði 19 skot. Oddur Gretarsson átti stórleik fyrir heimamenn og skoraði 12 mörk, þar af 5 úr vítum.
Gestirnir byrjuðu reyndar leikinn ágætlega og höfðu frumkvæðið framan af leik. Heimamenn tóku þó fljótlega að síga framúr og höfðu átta marka forystu í hálfleik, 20:12.Seinni hálfleikurinn varð aldrei spennandi og Akureyri keyrði á lið Stjörnunnar sem varð hálf dofið þegar leið á hálfleikinn. Norðanmenn náðu mest sextán marka forystu í seinni hálfleik og auðveldur og þægilegur sigur norðanmanna staðreynd.
Oddur Gretarsson var sem fyrr segir atkvæðamestur í liði norðanmanna með 12 mörk, Geir Guðmundsson skoraði 6 mörk, Heimir Örn Árnason og Bergvin Gíslason skoruðu 5 mörk hver og Hörður Fannar Sigþórsson kom næstur með 4 mörk. Hörður Flóki Ólafsson varði 10 skot í marki Akureyrar og Hafþór Einarsson 7 skot.
Í liði Stjörnunnar voru þeir Þórólfur Níelsen og Tandri Konráðsson markahæstir með 4 mörk hvor og þeir Daníel Einarsson og Víglundur Þórsson komu næstir með 3 mörk hvor.
Akureyri er þar með komið með 20 stig í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Hauka. Stjarnan er hins vegar í slæmum málum í næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig.