Hjörtur Narfason framkvæmdastjóri BM Vallá á Akureyri segir, að eina skilyrðið fyrir þátttöku í samtökunum sé vera með skráðan rekstur. "Það hefur verið talað um nauðsyn þess að stofna slík samtök í nokkur ár, nú er þetta loksins að verða að veruleika og eru allir atvinnurekendur velkomnir í hópinn."
Hjörtur segir brýnt að til sé samstarfsvettvangur starfandi fyrirtækja í bænum. "Það kreppir víða að og þá er þörf á samstöðu. Ég nefni sérstaklega nýsköpun og að unnið verði skipulega að því að halda verkefnum í bænum. Þegar gefur á bátinn er nauðsynlegt að standa saman, svo einfalt er það. Þess vegna eru slík samtök nauðsynleg. Síðan þurfa atvinnurekendur félagsskap til þess að ræða sameiginleg hagsmunamál við bæjaryfirvöld og fleiri."
Hjörtur segir að eigendur fyrirtækja og stjórnendur hafi sýnt málinu talsverðan áhuga og hann vonast eftir góðri mætingu á stofnfundinn.