Átján ára Eyfirðingur sigraði í einni stærstu snjóbrettakeppni heims

Halldór Helgason, 18 ára Eyfirðingur, frá Sílastöðum í Hörgarbyggð, sigraði í snjóbrettakeppni á stærsta íþróttamóti heims þar sem keppt er í jaðaríþróttum og fer fram um helgina í Aspen í Colorado í Bandaríkjunum. Síðar í dag keppir hann til úrslita í annarri grein á mótinu. Á föstudaginn var hann valinn nýliði ársins á ráðstefnu tveggja stærstu snjóbrettablaðanna í Bandaríkjunum sem fór fram í Denver í Colorado.

Halldór hefur undanfarin tvö ár verið við nám í menntaskóla í Svíþjóð. Hann náði góðum árangri á mótum í Noregi og Bandaríkjunum í haust og var í framhaldinu boðið á Winter X-Games mótið sem fer fram um helgina en það er að sögn kunnugra stærsti íþróttavettvangur jaðaríþrótta í heiminum.

Í dag, sunnudag, keppir Halldór til úrslita í snjóbrettagrein sem kallast "slopestyle". Í þeirri grein fara keppendur í gegnum nokkra stökkpalla ólíkt greininni sem Halldór sigraði í gær, þar sem keppendur stökkva af einum stórum palli.

Frá þessu er greint á fréttavefnum vísir.is.

Nýjast