Átakið Ungt fólk til athafna fer vel af stað

„Átakið fer mjög vel af stað," segir Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra, en nýverið var hrint af stað átaki fyrir unga atvinnuleitendur og hefur það yfirskriftina;  Ungt fólk til athafna. Átakið nær til fólks á aldrinum 18 til 24 ára, en um 250 manns á þeim aldri eru atvinnulaus á starfssvæðinu.  

Markmiðið er að tryggja að enginn verði atvinnulaus lengur en þrjá mánuði án þess að bjóðast vinna eða virkniúrræði. Ungu fólki án atvinnu bjóðast námstækifæri í framhaldsskólum, eða á vegum símenntunarstöðva, ný starfsþjálfunarpláss og störf við átaksverkefni. Einnig verður boðið upp á sjálfboðaliðastörf, ný pláss á vinnustofum, ásamt endurhæfingar- og meðferðarúrræðum.

„Unga fólkið tekur verkefninu með opnum huga og allir eru jákvæðir. Nóg er af úrræðum og er unga fólkið ánægt með að hafa val," segir Soffía.  Hún nefnir að foreldrar hafi einnig sýnt verkefninu áhuga er stefnt að því að halda opinn fund með þeim í næstu viku. Þá var fundur með ungu atvinnulausu fólki haldinn á Húsavík í gær og fyrirhugað að efna til fundar með síðasta hópnum í bili á Akureyri á mánudag í næstu viku. Meðal úrræða sem ungu fólki fyrir norðan standa til boða eru hjá Grasrót, Menntasmiðjunni, Akureyrarstofu, Rauða krossinum, Símey, Fjölsmiðjunni og Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Nýjast